Dísablót | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Sýningarárið 2018-2019

Dísablót

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir tvö ný íslensk dansverk á SPECTACULAR í nóvember á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Dísablót er magnað og einstakt danskvöld þar sem frumsýnd eru tvö ný íslensk dansverk á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Verk nr. 1 eftir Steinunni Ketilsdóttur við frumsamda tónlist Áskels Harðarsonar.

Verk nr. 1 er óhóflegt og óheflað. Stjórnlaus, skipulögð og seiðandi þvæla. Fjarlægt og fjarrænt en andar ofan í hálsmálið á þér. Það er einn, tveir, þrír og margir. Hver og einn einstakur en sameinaður. Sambönd og sundrung. Átök og árekstrar. Strúktúr og styrkur. Mýkt og næmni. Þar er kafað og grafið, dýpra og dýpra. Tími og rými stækka og skapa rými fyrir hreyfingu líkama, huga og hjarta. Titringur. Tilgangur. Athygli. Það er alltaf en aldrei viðkvæmt og nákvæmt.

Verk nr. 1 er eitt mögulegt dansverk skapað á þessum stað í tíma og rúmi. Það hefur óendanleg sjónarhorn, að innan jafnt sem utan. Það er fyrsta dansverkið í samnefndri röð verka eftir danshöfundinn Steinunni Ketilsdóttur sem sprettur upp af rannsóknarverkefninu EXPRESSIONS: virði og vald væntinga í dansiþar sem stöðugt er leitað að hinum dansinum, hinsegin dansi, okkar dansi.

Pottþétt myrkur eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson við tónlist Sigur Rósar.

Umvefðu skugga þinn og magnleysi, faðmaðu myrkrið!
Myrkrið er hlýtt og umvefjandi. Þar getur maður sofið vært og ferðast um í draumalandi eða horfið aftur í móðurkvið. Verið varnarlaus. En myrkrið er líka ógnvekjandi, ríki martraðar og einmanaleika, lén hungraðra drauga sem eigra þar um í leit að létti eða fullnægju. Þeir leita í sífellu ljóssins sem varpar skugga á aðra, en geta þó aldrei ekki satt hungur sitt, svo ærandi er tómleikinn; óveðrið sem þeir láta okkur kljást við um alla tíð.  

Pottþétt myrkur er lokakaflinn í röð verka um myrkrið og berskjöldun líkamans. Magnað og tilfinningaþrungið dansverk sem hrífur mann með sér.

 

 

Íd árskort

Tvær sýningar Íd á aðeins 7.500 kr.

Með Íd árskorti færðu 36% afslátt af miðum á Dísablót og Um hvað syngjum við.

Tryggðu þér Íd árskort HÉR eða í síma 568 8000.

Vinafélag Íd

Vilt þú taka þátt í því að styðja við bakið á framþróun íslenskrar dansmenningar?

Íslenski dansflokkurinn hefur sett á legg vinafélag fyrir alla þá sem  láta sig starfsemi dansflokksins varða.

Félagið mun standa fyrir opnum æfingum, kynningum á verkum, umræðum eftir sýningar og árlegum kynningarkokteil.

Allir geta orðið meðlimir í Vinafélaginu og hægt er að skrá sig með því að senda póst á vinafelag@id.is.

Árgjald Vinafélagsins er 3.500 kr.

sadsad