BLÆÐI : obsidian pieces | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Eldri Verk

BLÆÐI : obsidian pieces

© Proud Mother Productions

© Proud Mother Productions (Image courtesy of Chunky Move)

Við endurtökum leikinn og sýnum aftur verðlaunasýninguna BLÆÐI: obsidian pieces  30. ágúst og 6. september. Sýningin 30. september erhluti af dagskrá Lókal og Reykjavik Dance Festival.

Black Marrow eftir Damien Jalet og Ernu Ómarsdóttur við frumsamda tónlist Ben Frost.
Í Black Marrow birtist tær máttur líkamans sem reynir að lifa af í kæfandi heimi þar sem eðlishvötin hefur verið iðnvædd. Black Marrow var upprunalega samið fyrir Chunky Move, einn helsta nútímadansflokk Ástralíu, og sýnt á Alþjóðlegri Listahátíð Melbourne árið 2009. Verkið birtist hér í nýrri mynd, sérstaklega útfært fyrir og með Íslenska dansflokknum.

Les Médusées eftir Damien Jalet
Ásækið kventríó, upphaflega samið fyrir Louvre listasafnið í París, sem sækir innblástur sinn í hið töfrandi eðli gyðjustyttnanna í Marly garði safnsins.

Tvö brot úr hinu geisivinsæla verki Babel(words) eftir Damien Jalet og Sidi Larbi Cherkaoui
Sin er nautnafullur og kraftmikill dúett sem sækir innblástur sinn í goðsagnirnar um hið upprunalega par og þeirra sameinuðu og sundruðu krafta.
The Evocation er nútíma túlkun á Zikr, athöfn innan súfisma, þar sem endurtekning á einu orði er notað til að varpa burt álögum.

Danshöfundarnir þrír hafa allir sett svip sinn á dansheiminn í dag með verkum sínum. Damien Jalet hefur t.a.m. samið verk fyrir Parísar Óperuna, Skoska Dansleikhúsið, Louvre safnið í París og Íslenska dansflokkinn við mjög góðan orðstír og unnið með stórstjörnum úr listaheiminum á borð við Marinu Abramovic, Bernhard Willem og Christian Fennesz. Erna Ómarsdóttir er einn virtasti dansari og danshöfundur Íslendinga. Hún hefur unnið með nokkrum fremstu dans- og sviðlistahópum Evrópu og starfar núna sem listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins. Sidi Larbi Cherkaoui er einn sá allra eftirsóttasti danshöfundur heims í dag og hefur meðal annars samið fyrir Parísar Óperuna, Cedar Lake í New York og Konunglega danska ballettinn. Hann tók nýverið við starfi listræns stjórnanda Flæmska Konunglega Ballettsins.