
Mynd: Marie-Laure Briane
Erna Ómarsdóttir og Halla Ólafsdóttir hafa verið tilnefndar til FAUST-verðlaunanna, eftirsóttustu leiklistarverðlauna Þýskalands, sem danshöfundar ársins fyrir uppfærslu sína á verkinu Rómeó og Júlía eftir William Shakespeare, við sígilda tónlist Sergei Prokofiev. Þær sköpuðu verkið fyrir dansflokk Gärtnerplatz leikhússins í München árið 2018 og hlutu mikið lof fyrir frá bæði áhorfendum og gagnrýnendum. Sýning þeirra Ernu og Höllu var meðal annars sögð vera „hugrökk, dásamleg, þokkafull og óhugnanleg, sigur fyrir hina fullkomlega óhræddu Íslendinga” (BR-Klassik).
FAUST-verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Regensburg þann 9. nóvember næstkomandi. Verðlaunin eru afar mikils metin um allan heim og það er því einstakur heiður og árangur fyrir Ernu og Höllu að vera tilnefndar sem danshöfundar ársins í Þýskalandi. Einungis þrjár uppfærslur fá tilnefningu fyrir danshöfund ársins, en meðal tilnefndra er hin heimsfræga Anne Teresa de Keersmaeker.
Íslendingum gefst tækifæri til að sjá Rómeó + Júlíu á Listahátíð í Reykjavík 2020 en Erna og Halla munu endurskapa verkið í samvinnu við dansara Íslenska dansflokksins og flytja það ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi á Akureyri. Rómeó + Júlía er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Listahátíðar í Reykjavík og Þjóðleikhússins.