Í ár mun Íslenski dansflokkurinn bjóða upp á þrjár magnaðar danssýningar í Borgarleikhúsinu þar sem sýnd verða verk eftir heimsþekkta danshöfunda og unga og efnilega íslenska og erlenda danshöfunda.
EMOTIONAL frumsýnt 25. október á nýja sviðinu
Meadow eftir Brian Gerke
Hér leitar Grímuverðlaunahafinn Brian aftur í æskuslóðir sínar og úr því verður hugnæmt og safaríkt dansverk sem reynir á tæknilega færni dansaranna.
EMO1994 eftir Ole Martin Meland
Hrátt, kraftmikið og líkamlega krefjandi dansverk sem tengir saman frumtilveru, eldmóð æskunnar og endurskipulagningu á stórbrotnum klisjum raunveruleikans. ÁST, HATUR, DAUÐI.
Taugar frumsýnt 6. febrúar á nýja sviðinu
HULA eftir Sögu Sigurðardóttur við frumsamda tónlist Hallvarðar Ásgeirssonar
Að nálgast einingu við eilífðina í dansi með ákefð, óreiðu, geggjun, en fyrst og fremst ást.
Saga Sigurðardóttir hlaut Grímuna 2009 fyrir verkið Humanimal og hefur verið á hraðri uppleið síðan sem einn af okkar helstu danshöfundum.
1-2-1 Test (vinnutitill) eftir Karol Tyminski
Tilraunastofa þar sem hreyfingar líkamans eru hlutgerðar og líkamslögum flett. Hvað leynist undir yfirborðinu?
Karol Tyminski er pólskur dansari og danshöfundur og öflugur fulltrúi vaxandi kynslóðar ungra listamanna. Verk hans Beep hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og var álitið eitt róttækasta og mest spennandi verk sem sést hefur lengi á Impuls Danshátíðinni, stærstu danshátíð Evrópu.
OBSIDIAN pieces frumsýnt 23. maí á stóra sviðinu á 29. Listahátíð í Reykjavík
Brot úr Babel(words) eftir Damien Jalet og Sidi Larbi Cherkaoui
Hinir heimsfrægu danshöfundar Damien Jalet og Sidi Larbi Cherkaoui bjóða upp á djarfa og blíða frásögn af persónulegum, líkamlegum, menningarlegum og málfræðilegum mörkum, þar sem stöðugt er verið að giska á hvað sameinar okkur frekar en aðgreinir okkur.
Black Marrow eftir Damien Jalet og Ernu Ómarsdóttur við frumsamda tónlist Ben Frost
Ólguvekjandi endurspeglun á samfélaginu sem sýnir að líf getur lifað af hörðustu aðstæður. Í Black Marrow birtist tær máttur líkamans í öllu sínu veldi.