Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Verkefnaskrá

Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri

Óður og Flexa í rafmögnuðu ævintýri!

Eftir ævintýralegt afmælispartý er allt á rúi og stúi heima hjá Óði og Flexu. Þau eru ennþá uppveðruð eftir að hafa ferðast um heima og geima með ímyndunaraflinu og eru tilbúin til að takast á við næsta ofurhetju verkefni: að taka til með stæl!

Þeim birtist þá óvænt rafmagnaður gestur. Hver er hann? Hvaða kröftum er hann gæddur? Hvað getur hann kennt Óði og Flexu um heima rafmagnsins?

Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri er eftir þau Hannes Þór Egilsson og Þyri Huld Árnadóttur. Leikstjóri er Pétur Ármannsson og búningar og leikmynd eftir Sigríði Sunnu Reynisdóttur.

Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri var fyrst frumsýnt þann 2. júní 2018 á Listahátíð í Reykjavík og er sjálfstætt framhald af verkinu Óður og Flexa halda afmæli sem sýnt var í Borgarleikhúsinu 2016. Sýningin Óður og Flexa halda afmæli hlaut einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda og var tilnefnd til Grímuverðlauna 2016 í flokkunum Barnasýning ársins og Danshöfundar ársins.

Um höfundana/aðstandendur:

Hannes Þór Egilsson (Óður) lagði stund á samkvæmisdans frá því að hann var 6 ára til 18 ára aldurs. 19 ára hóf hann nám við Listdansskóla Íslands og tveimur árum síðar var hann kominn í hinn virta skóla London Contemporary Dance School. Eftir útskrift lá leiðin beint í Íslenska dansflokkinn og hefur hann dansað með flokknum síðan með hléum. Hannes hefur unnið mikið með Kristjáni Ingimarssyni og tekið þátt í hinni margrómuðu sýningu Blam! Óður og Flexa halda afmæli var fyrsta verk Hannesar sem danshöfundur hjá Íslenska dansflokknum en hann samdi síðar sama ár verkið Neon fyrir dansflokkinn.

Þyri Huld Árnadóttir (Flexa) útskrifaðist af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands 2011. Hún dansaði með Íslenska dansflokknum 2010-2012 og svo aftur núna frá 2014. Þyri samdi verkið Óraunveruleikir í Þjóðleikhúsinu 2014 ásamt Valgerði Rúnarsdóttur og Urði Hákonardóttur og hlutu þær Grímutilnefningu fyrir verk sitt. Þyri hlaut Grímuverðlaunin sem Dansari ársins 2015 fyrir frammistöðu sína í verkinu SIN sem sýnt var á Listahátíð 2015. Þyri hefur verið að þreifa sig áfram í búningahönnun samhliða dansinum en hún hefur hannað búninga fyrir þrjú verk hjá Íslenska dansflokknum, It is not a metaphor eftir Cameron Corbett, Stjörnustríð 2 eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Neon eftir Hannes Þór Egilsson. Óður og Flexa halda afmæli var fyrsta verk Þyriar sem danshöfundur hjá Íslenska dansflokknum.

Pétur Ármannsson leikari er leikstjóri sýningarinnar. Hann útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands 2012 og sótti starfsnám í leikstjórn í samtímaleikhúsinu Shaubühne í Berlín 2013. Pétur er annar af stofnendum „Dance For Me” sem hlaut tilnefninguna Sproti ársins 2014 fyrir sýninguna Dansaðu fyrir mig. Sú sýning hlaut mikla athygli fyrir þær sakir að faðir hans, sem hefur enga formlega reynslu af dansi, var aðaldansari sýningarinnar. Pétur hefur sýnt verk sín víðsvegar um Ísland en einnig í Kanada, Þýskalandi, Noregi, Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Sviss og Ítalíu.

Sigríður Sunna Reynisdóttir hannar búninga og leikmynd sýningarinnar. Sigríður Sunnar útskrifaðist vorið 2012 með BATP gráðu frá Royal Central School of Speech and Drama, af brúðuleikhús- og sviðshöfundabraut. Áður nam hún almennar bókmenntir og leikhúsfræði við Háskóla Íslands og Universitá Karlová. Sunna er stofnandi og listrænn stjórnandi VaVaVoom leikhópsins ásamt Söru Martí. Þær standa á bak við sýningarnar Hands Up! sem hlaut Tallinn Treff Festival verðlaunin 2011, Nýjustu fréttir sem hlaut 2 Grímutilnefningar árið 2012 og nú síðast WIDE SLUMBER sem var frumsýnd á Listahátíð í Reykjavík 2014 og hlaut Music Theatre NOW verðlaunin 2015. Auk VaVaVoom hefur hún komið fram með ýmsum öðrum leikhópum. Sunna hannaði leikmynd, búninga og brúður fyrir Hamlet litla í Borgarleikhúsinu sem hlaut Grímuverðlaunin sem Barnasýning ársins 2014. Hún hannaði einnig leikmynd, búninga og brúður fyrir Lísu í Undralandi sem sett var upp af MAk í Samkomuhúsinu á Akureyri. Á síðasta leikári hannaði hún leikmynd og búninga fyrir Vísindasýningu Villa í Borgarleikhúsinu.

Kjartan Darri Kristjánsson hannar ljósin í sýningunni. Kjartan Darri útskrifaðist með BA frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2015. Eftir útskrift tók hann til starfa hjá Leikfélagi Akureyrar og lék m.a. í verkunum Pílu Pínu og Helga magra. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga í sjálfstæðu senunni sem leikari, video, hljóð og ljósahönnuður. En þar ber helst að nefna sýningarnar Endastöð-Upphaf í uppsetningu Lab-Loka, Fyrirlestur um eitthvað fallegt í uppsetningu SmartíLab, Hún Pabbi í Borgarleikhúsinu, Hans Blær í uppsetningu Óskabarna Ógæfunnar, Natan í uppsetningu Aldrei Óstelandi og sýninguna How to Become Icelandic in 60 Minutes sem sýnd hefur verið í Hörpu yfir 600 sinnum. Darri hlaut tilnefningu til Grímuverðlauna fyrir ljósahönnun í sýningunni Þórbergur.

 

Gagnrýni

★★★★
“Fjörug og flott sýning þar sem áhorfendur fengu að sjá mátt leikhústækninnar og mannslíkamans.”
Sesselja G. Magnúsdóttir – Fréttablaðið 

★★★★
“Strax í upphafsatriðinu er tónninn sleginn því þegar Óður og Flexa hefja leik þá láta líkamar þeirra ekki að stjórn með tilheyrandi uppákomum og skemmtun fyrir áhorfendur. Þessar kúnstir náðu salnum sem veltist um af hlátri.”
Sesselja G. Magnúsdóttir – Fréttablaðið 

★★★★
“Þessi sýning var allsherjar húllumhæ, fjör og kraftur þar sem hreyfing, hljóð og ljós heillaði áhorfendur.”
Sesselja G. Magnúsdóttir – Fréttablaðið 

★★★★
“Þær 45 mínútur sem verkið stóð voru fljótar að líða enda alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast. Frammistaða allra á sviðinu var með ólíkindum og verkið rann vel. Það var ekki síst gleði og aðdáun sem verkið vakti hjá áhorfendum sem voru á þeirri sýningu sem undirrituð fór á, heldur yngri en þeim sem verið höfðu á fyrri verkunum um þau Óð og Flexu.”
Sesselja G. Magnúsdóttir – Fréttablaðið 

★★★
“Sviðsmynd, búningar og ljósahönnun eru stórkostlega unnin og spila gríðarstórt hlutverk í verkinu. Búningarnir eru konfekt fyrir augun og ásamt stóru led-ljósa-römmunum, litasprengjunni og snjallri ljósahönnuninni skapast grípandi andrúmsloft og sjónrænn unaður sem mun seint gleymast bæði ungum og eldri.”
Nína Hjálmarsdóttir – Morgunblaðið 

★★★
“Hugmyndin að persónunum og sviðsetningunni er frumleg, gleði og stuð allsráðandi, og virtust hinir ungu áherfundur skemmta sér vel.”
Nína Hjálmarsdóttir – Morgunblaðið 

★★★
“Hannes Þór og Þyri Huld sýna góða færni og beita líkamanum á óvenjulegan og spennandi hátt”
Nína Hjálmarsdóttir – Morgunblaðið 

★★★
“Ernesto Camilo stendur sig snilldarlega í hlutverki einhvers konar rafmanns með sinni einlægu sviðsnærveru, flottu danstöktum og brosi sem snertir við hverjum sem er. Hann hrífur alla með, og börnin taka andköf þegar hann hreyfir ljósið eins og galdramaður.”
Nína Hjálmarsdóttir – Morgunblaðið 

★★★
“Það er mikið gleðiefni að Íslenski dansflokkurinn sé að framleiða dansverk fyrir börn. Það er mikilvægt að þau fái notið möguleika dans, tækni og leikhústöfra á unga aldri. Ævintýraveröld Óðs og Flexu er grípandi og áhrifamikið verk sem býður ímyndunaraflinu í dans og er vel þess virði að sjá.”
Nína Hjálmarsdóttir – Morgunblaðið 

sadsad