
Frumsýnt 5. Nóvember á Stóra sviði Borgarleikhússins
Danshöfundur: Sigga Soffía í samstarfi við dansara
Tónlist: Jóhann Jóhannsson o.fl.
Ljós: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Búningar: Hildur Yeoman
Sviðsmynd: Helgi Már Kristinsson
Leikhúsfræðilegur ráðgjafi: Alexander Roberts
Dansarar: Aðalheiður Halldórsdóttir, Ásgeir Helgi Magnússon, Cameron Corbet, Ellen Margrét Bæhrenz/Halla Þórðardóttir, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Þyri Huld Árnadóttir
Það er eitthvað svo fallegt en harmrænt við flugelda. Þeim er skotið upp á himininn, þeir springa út, blómstra og hrörna áður en þeir hverfa og verða að engu. Þessi fórn er færð til að áhorfendur sitji eftir með tilfinninguna um að hafa upplifað eitthvað stórfenglegt. Líkt og með flugelda er fegurðar hreyfingarinnar best notið frá fyrstu hendi; krafts einfaldra forma, blæbrigða lita, þyngdar og stemningar hrynjandinnar. Að sitja í þögn með fjölda fólks og upplifa kraft, flæði og fegurð í 60 mínútur.
Sigga Soffía hefur hannað flugeldasýningar Menningarnætur og Vodafone síðastliðin þrjú ár. Og himinninn kristallast er lokapunktur á flugeldaþríleik hennar en verkið er endursköpun á flugeldasýningunni Stjörnubrim sem flutt var á Menningarnótt 2015. Við það að dansarar taki stöðu ljósa fer sýningin í kunnuglegra leikhúsform. Dansarinn helgar líf sitt leitinni að hinni fullkomnu línu og líkt og flugeldar blómstrar hann þar til líkami hans brotnar og hrörnar. Þessi fórn er færð til að áhorfendur sitji eftir með tilfinninguna um að hafa upplifað eitthvað stórfenglegt. Dansarar líða um sviðið en nú í hreyfiferlum flugelda. Unnið er með eðli flugelda en ólíkar tegundir og stærðir flugelda hafa bæði mismunandi nöfn, hreyfieiginleika, liti og stærð. Þannig fæðast persónur verksins sem hafa sömu persónueinkenni og flugeldarnir.
Vangaveltur um flugelda leiddu höfundinn inn í heimspekilegar hugleiðingar um eðli fegurðar og mælanleika hennar út frá kenningum um lögmál líkt og gullinsniðið og Fibonacci talnarununa. Kenningar heimspekinga um að fegurð sé í raun tilfinning vekja upp spurningar um hvað sé fegurð og hvort hún sé til án þjáningar. Hvaðan kemur þessi þráhyggja mannsins um fegurð, æskudýrkun og tregða hans við að sætta sig við dauðleika sinn? Af hverju heillumst við af því sem telst fagurt?
Sigga Soffía útskrifaðist af samtímadansbraut frá Listaháskóla Íslands árið 2009 en á lokaári sínu var hún í skiptinámi við sirkusskólann Ecole Superior des Arts de Cirque í Brussel. Sigga Soffía hefur unnið bæði sem dansari og danshöfundur í fjölmörgum uppfærslum, bæði hérlendis sem erlendis, og hefur m.a. dansað með Shalala, dansflokki Ernu Ómarsdóttur, síðan 2009. Hún hefur vakið mikla athygli sem danshöfundur en verk hennar Svartar fjaðrir opnaði 29. Listahátíð í Reykjavík á Stóra sviði Þjóðleikhússins í maí 2015. Svartar fjaðrir hlaut þrjár tilnefningar til Grímunnar; sem Sproti ársins, Búningahönnuður ársins og Tónlist ársins. Sigga Soffía var einnig tilnefnd til Grímunnar sem Danshöfundur ársins fyrir verkið White for Decay sem hún samdi fyrir Íslenska dansflokkinn árið 2011. Sigga Soffía er einna þekktust fyrir flugeldasýningar sínar á menningarnóttum Reykjavíkur en árið 2013 hlaut hún Menningarverðlaun DV fyrir Eldar sem var fyrsta flugeldaverkið hennar.
Sérstakur stuðningsaðili OG HIMINNINN KRISTALLAST er
