Orfeus & Evridís | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Sýningarárið 2023-2024

Orfeus & Evridís

Flutt af dönsurum Íslenska dansflokksins ásamt leikurum Leikfélags Reykjavíkur.


Goðsögnin um hina ódauðlegu ást Orfeusar og Evridísar er til í ýmsum útgáfum en þessi vinsæli efniviður rekur þó rætur sínar til enn eldri sagna um gyðjuna Demetru sem sá á eftir dóttur sinni Persefónu til undirheima, í hendur Hadesar. Í Grikklandi til forna voru einmitt haldnar miklar hátíðir til heiðurs Demetru og þá jafnan í tengslum við akuryrkju; sáningu og uppskeru. Í meðförum Íslenska dansflokksins er gerð tilraun til þess að túlka söguna um Orfeus og Evridísi sem eilífa hringrás vaxtar og hrörnunar, fæðingu og dauða. Hér er sjónum beint að umbreytingum, listsköpun og því ferli sem fætt hefur af sér hugmyndina um snillinginn Orfeus – manninn sem dáleiðir allt kvikt með söng sínum og nærist á sorginni í upphafinni brúðarmynd.

Þessi nýi jaðarsöngleikur veltir upp spurningum um líf og dauða, skilning og tilfinningu, listsköpun og ærandi þögn – hver á „Gullna reyfið?“ Hvaðan koma allir snákarnir? Og hefur Evridís einhvern áhuga á að snúa aftur til fyrra lífs?