Íslenski dansflokkurinn endursýnir verkið What a feeling sem var hluti af kvöldinu Persóna sem sýnt var á Nýja sviði Borgarleikhússins í maí 2016.
Sunnudaginn 28. ágúst kl 19:00 í Tjarnarbíó verður What a feeling sýnt á Everybody’s Spectacular, sviðslistahátíð RDF og Lókal, ásamt The Valley eftir þær Ingu Huld Hákonardóttur og Rósu Ómarsdóttur.
Í stöðugri leit að nýjum aðferðum við að skapa dans nýta Halla og Lovísa sér hið hefðbundna og endurvinna það í von um að hið einstaka brjótist fram. Þær vilja draga fram dansarann sem einstakling og hafa því í samvinnu við dansara Íslenska dansflokksins skapað uppáhalds sólódans hvers og eins. Sólódans byggðan á löngunum, þrám og sögu hvers dansara fyrir sig.
Aðalheiður Halldórsdóttir, dansari Íslenska dansflokksins, hlaut Grímuna 2016 sem Dansari ársins fyrir frammistöðu sína í What a feeling.