Erna Ómarsdóttir | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Erna Ómarsdóttir

Listdansstjóri

Erna Ómarsdóttir, listdansstjóri Íslenska dansflokksins, útskrifaðist frá PARTS í Brüssel (performing arts research and training studios) árið 1998. Eftir nám starfaði hún með Jan Fabre, Ballet C De la B, Sidi Larbi Cherkaoui og stofnaði danshópana Ekki (Reykjavík) og Poni (Brüssel). Hún hefur samið nokkur verk fyrir Íslenska dansflokkinn, þeirra á meðal We are all Marlene Dietrich for (2005) í samvinnu við Emil Hrvation (Janez Janza), Transaquania – out of the blue (2009) og Transaquania – into thin air (2010) ásamt þeim Damien Jalet og Gabríelu Friðriksdóttur. Árið 2009 samdi Erna verkið Black Marrow í samvinnu við Damien Jalet fyrir ástralska danshópinn Chunky Move. Verkið var frumsýnt á Melbourne International Arts Festival og svo endurunnið 2015 í samvinnu við Íd. Verkið hlaut Grímutilnefningu sem Sýning ársins 2015, fyrst allra dansverka. Erna sá um sviðshreyfingar í Njálu (2015) sem var unnið í samvinnu við Borgarleikhúsið. Njála hlaut 10 Grímuverðlaun 2016, þ.á.m. hlaut Erna verðlaunin fyrir Dans- og sviðshreyfingar ársins. Nýjasta sköpun Ernu er FÓRN sem er hún vann í samstarfi við Valdimar Jóhannsson, Matthew Barney, Ragnar Kjartansson, Margréti Bjarnadóttur og Gabríelu Friðriksdóttur en það verk hefur svo sannarlega farið sigurför um Evrópu síðustu misseri.

Árið 2008 stofnuðu Erna og Valdimar Jóhannsson sviðslistahópinn shalala. Þau hafa samið saman fjölda dans- og sviðsverka sem hafa flest hver verið sýnd á helstu sviðslistahátíðum og í leikhúsum í Evrópu og víðar. Valdimar og Erna eru einnig saman í hljómsveitinni LAZYBLOOD.

Erna Ómarsdóttir hefur unnið náið með Gabríelu Friðriksdóttur og tónlistarmönnum á borð við Björk, SigurRós, Ólöfu Arnalds, Jóhann Jóhannsson og Ben Frost. Erna var listrænn stjórnandi hátíðarinnar Les Grandes Traversees í Bordeaux í Frakklandi árið 2007 og annar listrænna stjórnenda Reykjavík Dance Festival 2013. Hún hefur oft verið tilnefnd sem dansari og danshöfundur í ársyfirliti þýska tímaritsins Ballet Tanz. Erna hefur hlotið 6 Grímuverðlaun, menningarverðlaun DV og útnefningu sem heiðurslistamaður Kópavogs. Hún er sérlegur listamaður Evrópuverkefnisins APAp, sem er tengslanet fjölda evrópskra sviðslistahátíða og leikhúsa.

Netfang: erna.omarsdottir@id.is

Starfsfólk

Erna Ómarsdóttir
Skúli Malmquist
Kata Ingva
sadsad