Óður og Flexa snúa aftur í rafmögnuðu ævintýri á Listahátíð í Reykjavík 2018.Óður og Flexa 1

Eftir ævintýralegt afmælispartý er allt á rúi og stúi heima hjá Óði og Flexu. Þau eru ennþá uppveðruð eftir að hafa ferðast um heima og geima með ímyndunaraflinu og nenna ómögulega að taka til eftir sig. Þá birtist þeim óvæntur gestur. Hver er hann? Hvaðan kom hann? Ættu þau nokkuð að vera smeik við hann? Kemur hann þeim kannski í stuð?

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík nýtt verk um vinina Óð og Flexu eftir þau Hannes Þór Egilsson og Þyri Huld Árnadóttur. Leikstjóri er Pétur Ármannsson og búningar og leikmynd eftir Sigríði Sunnu Reynissdóttur.

Óður og Flexa rafmagnað ævintýri er sjálfstætt framhald af verkinu Óður og Flexa halda afmæli sem sýnt var í Borgarleikhúsinu 2016. Sýningin Óður og Flexa halda afmæli hlaut einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda og var tilnefnd til Grímuverðlauna 2016 í flokkunum Barnasýning ársins og Danshöfundar ársins.

Um höfundana:

Hannes Þór Egilsson (Óður) lagði stund á samkvæmisdans frá því að hann var 6 ára til 18 ára aldurs. 19 ára hóf hann nám við Listdansskóla Íslands og tveimur árum síðar var hann kominn í hinn virta skóla London Contemporary Dance School. Eftir útskrift lá leiðin beint í Íslenska dansflokkinn og hefur hann dansað með flokknum síðan með hléum. Hannes hefur unnið mikið með Kristjáni Ingimarssyni og tekið þátt í hinni margrómuðu sýningu Blam! Óður og Flexa halda afmæli var fyrsta verk Hannesar sem danshöfundur hjá Íslenska dansflokknum en hann samdi síðar sama ár verkið Neon fyrir dansflokkinn.

Þyri Huld Árnadóttir (Flexa) útskrifaðist af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands 2011. Hún dansaði með Íslenska dansflokknum 2010-2012 og svo aftur núna frá 2014. Þyri samdi verkið Óraunveruleikir í Þjóðleikhúsinu 2014 ásamt Valgerði Rúnarsdóttur og Urði Hákonardóttur og hlutu þær Grímutilnefningu fyrir verk sitt. Þyri hlaut Grímuverðlaunin sem Dansari ársins 2015 fyrir frammistöðu sína í verkinu SIN sem sýnt var á Listahátíð 2015. Þyri hefur verið að þreifa sig áfram í búningahönnun samhliða dansinum en hún hefur hannað búninga fyrir þrjú verk hjá Íslenska dansflokknum, It is not a metaphor eftir Cameron Corbett, Stjörnustríð 2 eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Neon eftir Hannes Þór Egilsson. Óður og Flexa halda afmæli var fyrsta verk Þyriar sem danshöfundur hjá Íslenska dansflokknum.

Pétur Ármannsson leikari er leikstjóri sýningarinnar. Hann útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands 2012 og sótti starfsnám í leikstjórn í samtímaleikhúsinu Shaubühne í Berlín 2013. Pétur er annar af stofnendum „Dance For Me” sem hlaut tilnefninguna Sproti ársins 2014 fyrir sýninguna Dansaðu fyrir mig. Sú sýning hlaut mikla athygli fyrir þær sakir að faðir hans, sem hefur enga formlega reynslu af dansi, var aðaldansari sýningarinnar. Pétur hefur sýnt verk sín víðsvegar um Ísland en einnig í Kanada, Þýskalandi, Noregi, Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Sviss og Ítalíu.

Sigríður Sunna Reynisdóttir hannar búninga og leikmynd sýningarinnar. Sigríður Sunnar útskrifaðist vorið 2012 með BATP gráðu frá Royal Central School of Speech and Drama, af brúðuleikhús- og sviðshöfundabraut. Áður nam hún almennar bókmenntir og leikhúsfræði við Háskóla Íslands og Universitá Karlová. Sunna er stofnandi og listrænn stjórnandi VaVaVoom leikhópsins ásamt Söru Martí. Þær standa á bak við sýningarnar Hands Up! sem hlaut Tallinn Treff Festival verðlaunin 2011, Nýjustu fréttir sem hlaut 2 Grímutilnefningar árið 2012 og nú síðast WIDE SLUMBER sem var frumsýnd á Listahátíð í Reykjavík 2014 og hlaut Music Theatre NOW verðlaunin 2015. Auk VaVaVoom hefur hún komið fram með ýmsum öðrum leikhópum. Sunna hannaði leikmynd, búninga og brúður fyrir Hamlet litla í Borgarleikhúsinu sem hlaut Grímuverðlaunin sem Barnasýning ársins 2014. Hún hannaði einnig leikmynd, búninga og brúður fyrir Lísu í Undralandi sem sett var upp af MAk í Samkomuhúsinu á Akureyri. Á síðasta leikári hannaði hún leikmynd og búninga fyrir Vísindasýningu Villa í Borgarleikhúsinu.

 

Gagnrýni

Þetta er það sem gagnrýnendur höfðu að segja um Óður og Flexa halda afmæli:

★★★★★
“Mikill hlátur var meðal áhorfenda sem spönnuðu mjög breiðan aldurshóp” – “aldrei mátti finna orkuna falla.”
Kara Hergils Valdimarsdóttir hjá Fréttablaðinu 

“Það eru því vinsamleg tilmæli til foreldra að fara með börnin í afmælið hjá Óði og Flexu og endilega bjóðið stóru systkinunum með því það er bara ávísun á skemmtilega samverustund.”
Sesselja G. Magnúsdóttir á Hugrás

“Sá sjö ára var dolfallinn. „ Þetta var skemmtilegt“, endurtók hann nokkrum sinnum og vildi fara stax aftur.”
María Kristjánsdóttir hjá Víðsjá

“Þessi sýning var ansi skemtileg og frábær. Á skalanum 0-17 fær þessi sýning 182 frá mér. Ég mundi mæla með Óð og Flexu fyrir allan aldur”
Edda Ágústa á pjatt.is

sadsad