Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Sýningarárið 2017-2018

Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri

16.
sept
23.
sept
30.
sept

Óður og Flexa snúa aftur í rafmögnuðu ævintýri á Listahátíð í Reykjavík 2018.

Eftir ævintýralegt afmælispartý er allt á rúi og stúi heima hjá Óði og Flexu. Þau eru ennþá uppveðruð eftir að hafa ferðast um heima og geima með ímyndunaraflinu og eru tilbúin til að takast á við næsta ofurhetju verkefni: að taka til með stæl!

Þeim birtist þá óvænt rafmagnaður gestur. Hver er hann? Hvaða kröftum er hann gæddur? Hvað getur hann kennt Óði og Flexu um heima rafmagnsins?

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir á Listahátíð í Reykjavík nýtt verk um vinina Óð og Flexu eftir þau Hannes Þór Egilsson og Þyri Huld Árnadóttur. Leikstjóri er Pétur Ármannsson og búningar og leikmynd eftir Sigríði Sunnu Reynisdóttur.

Óður og Flexa: Rafmagnað ævintýri er sjálfstætt framhald af verkinu Óður og Flexa halda afmæli sem sýnt var í Borgarleikhúsinu 2016. Sýningin Óður og Flexa halda afmæli hlaut einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda og var tilnefnd til Grímuverðlauna 2016 í flokkunum Barnasýning ársins og Danshöfundar ársins.

Um höfundana:

Hannes Þór Egilsson (Óður) lagði stund á samkvæmisdans frá því að hann var 6 ára til 18 ára aldurs. 19 ára hóf hann nám við Listdansskóla Íslands og tveimur árum síðar var hann kominn í hinn virta skóla London Contemporary Dance School. Eftir útskrift lá leiðin beint í Íslenska dansflokkinn og hefur hann dansað með flokknum síðan með hléum. Hannes hefur unnið mikið með Kristjáni Ingimarssyni og tekið þátt í hinni margrómuðu sýningu Blam! Óður og Flexa halda afmæli var fyrsta verk Hannesar sem danshöfundur hjá Íslenska dansflokknum en hann samdi síðar sama ár verkið Neon fyrir dansflokkinn.

Þyri Huld Árnadóttir (Flexa) útskrifaðist af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands 2011. Hún dansaði með Íslenska dansflokknum 2010-2012 og svo aftur núna frá 2014. Þyri samdi verkið Óraunveruleikir í Þjóðleikhúsinu 2014 ásamt Valgerði Rúnarsdóttur og Urði Hákonardóttur og hlutu þær Grímutilnefningu fyrir verk sitt. Þyri hlaut Grímuverðlaunin sem Dansari ársins 2015 fyrir frammistöðu sína í verkinu SIN sem sýnt var á Listahátíð 2015. Þyri hefur verið að þreifa sig áfram í búningahönnun samhliða dansinum en hún hefur hannað búninga fyrir þrjú verk hjá Íslenska dansflokknum, It is not a metaphor eftir Cameron Corbett, Stjörnustríð 2 eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Neon eftir Hannes Þór Egilsson. Óður og Flexa halda afmæli var fyrsta verk Þyriar sem danshöfundur hjá Íslenska dansflokknum.

Pétur Ármannsson leikari er leikstjóri sýningarinnar. Hann útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands 2012 og sótti starfsnám í leikstjórn í samtímaleikhúsinu Shaubühne í Berlín 2013. Pétur er annar af stofnendum „Dance For Me” sem hlaut tilnefninguna Sproti ársins 2014 fyrir sýninguna Dansaðu fyrir mig. Sú sýning hlaut mikla athygli fyrir þær sakir að faðir hans, sem hefur enga formlega reynslu af dansi, var aðaldansari sýningarinnar. Pétur hefur sýnt verk sín víðsvegar um Ísland en einnig í Kanada, Þýskalandi, Noregi, Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Sviss og Ítalíu.

Sigríður Sunna Reynisdóttir hannar búninga og leikmynd sýningarinnar. Sigríður Sunnar útskrifaðist vorið 2012 með BATP gráðu frá Royal Central School of Speech and Drama, af brúðuleikhús- og sviðshöfundabraut. Áður nam hún almennar bókmenntir og leikhúsfræði við Háskóla Íslands og Universitá Karlová. Sunna er stofnandi og listrænn stjórnandi VaVaVoom leikhópsins ásamt Söru Martí. Þær standa á bak við sýningarnar Hands Up! sem hlaut Tallinn Treff Festival verðlaunin 2011, Nýjustu fréttir sem hlaut 2 Grímutilnefningar árið 2012 og nú síðast WIDE SLUMBER sem var frumsýnd á Listahátíð í Reykjavík 2014 og hlaut Music Theatre NOW verðlaunin 2015. Auk VaVaVoom hefur hún komið fram með ýmsum öðrum leikhópum. Sunna hannaði leikmynd, búninga og brúður fyrir Hamlet litla í Borgarleikhúsinu sem hlaut Grímuverðlaunin sem Barnasýning ársins 2014. Hún hannaði einnig leikmynd, búninga og brúður fyrir Lísu í Undralandi sem sett var upp af MAk í Samkomuhúsinu á Akureyri. Á síðasta leikári hannaði hún leikmynd og búninga fyrir Vísindasýningu Villa í Borgarleikhúsinu.

Gagnrýni

★★★★
“Fjörug og flott sýning þar sem áhorfendur fengu að sjá mátt leikhústækninnar og mannslíkamans.”
Sesselja G. Magnúsdóttir – Fréttablaðið 

★★★★
“Strax í upphafsatriðinu er tónninn sleginn því þegar Óður og Flexa hefja leik þá láta líkamar þeirra ekki að stjórn með tilheyrandi uppákomum og skemmtun fyrir áhorfendur. Þessar kúnstir náðu salnum sem veltist um af hlátri.”
Sesselja G. Magnúsdóttir – Fréttablaðið 

★★★★
“Þessi sýning var allsherjar húllumhæ, fjör og kraftur þar sem hreyfing, hljóð og ljós heillaði áhorfendur.”
Sesselja G. Magnúsdóttir – Fréttablaðið 

★★★★
“Þær 45 mínútur sem verkið stóð voru fljótar að líða enda alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast. Frammistaða allra á sviðinu var með ólíkindum og verkið rann vel. Það var ekki síst gleði og aðdáun sem verkið vakti hjá áhorfendum sem voru á þeirri sýningu sem undirrituð fór á, heldur yngri en þeim sem verið höfðu á fyrri verkunum um þau Óð og Flexu.”
Sesselja G. Magnúsdóttir – Fréttablaðið 

 

Íd á ferð og flugi

26. & 27. May  2017 // Utrecht – Spring Festival // FÓRN

20. June 2017 // Harstad, Artic Arts Festival // FÓRN

12.júlí 2017 // Amsterdam, Julidans // Black Marrow

18. & 19. ágúst 2017 //  London, Southbank Centre // FÓRN

8., 9. & 10. september 2017// Tanzhaus, Dusseldorf //FÓRN

18. & 19. nóvember 2017 // Kunstcentrum, BUDA, Kortrijk  // FÓRN

16. & 17. febrúar 2018 // Teatro Arriaga, Bilbao // Black Marrow

5. & 6. maí 2018 // Onassis Cultural Centre, Aþenu // FÓRN

27., 28. & 29 maí 2018 // Festival TransAmeriques, Quebec // Union of the North

20.-30. maí 2018 // Garage Museum of Contemporary Art, Moscow // Union of the North

7. júlí 2018 // Low Light Festival, Queenscliff, Melbourne // Union of the North, Dies Irae & Örævi

sadsad