Dansar í Eldborg: Igor Stravinsky í 100 ár | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Eldri Verk

Dansar í Eldborg: Igor Stravinsky í 100 ár

Frægustu danstónverk Stravinskys á sviði Eldborgar

Listahátíð í Reykjavík leiðir saman Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska dansflokkinn, sem dansar nú í fyrsta sinn við lifandi tónlistarflutning á Eldborgarsviði Hörpu. Hljómsveitin og dansflokkurinn flytja saman tvö af danstónverkum Stravinskys, Vorblótið og Petrúska. Verk hins unga Igors mörkuðu djúp spor í tónlistarsöguna fyrir 100 árum, á einu frjóasta tímabili í listsköpun 20. aldar. Í fyrsta sinn gefst færi á að sjá og heyra danstónverk hans á Listahátíð í Reykjavík, í túlkun tveggja af fremstu danshöfunda Íslands og Finnlands og undir stjórn eins þekktasta hljómsveitarstjóra Frakklands.

Vorblótið er glænýtt íslenskt dansverk flutt af dönsurum Íslenska dansflokksins ásamt fyrsta árs nemum samtímadansbrautar leiklistar- og dansdeildar Listaháskóla Íslands.

Tónlistin við Vorblótið markaði tímamót í tónlistarsögunni og hefur haft gríðarleg áhrif á tónsmíðar 20. aldar. Í vor eru liðin eitt hundrað ár frá frumflutningi þess í París, við dansverk hins fræga dansara og danshöfundar Vaslav Nijinsky. Frumstæðar balletthreyfingarnar og ómstríð tónlistin ollu því að strax á fyrstu mínútunum brutust út slagsmál meðal áhorfenda. Stravinsky lýsti verkinu sem „danstónverki“ og það er óður til holskeflu hins skapandi krafts sem vorið færir með sér. Frá frumflutningi Vorblótsins hafa listamenn víða um heim endurtúlkað þetta magnaða danstónverk á margvíslegan hátt.

Nálgun Íslenska dansflokksins við Vorblótið er nútímaleg þar sem lífsneistinn sem felur í sér þrár, von, hreinsun, og sköpunarorku er í brennidepli. Listrænir stjórnendur verksins eru Lára Stefánsdóttir, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, Filippía Elísdóttir og Björn Bergsteinn Guðmundsson.

Petrúska er rússnesk þjóðsaga um strábrúðu sem lifnar við og öðlast tilfinningar. Höfundur dansverksins er Jorma Uotinen, einn fremsti danshöfundur Norðurlanda. Verkið var frumsýnt árið 1994 af Finnska ballettflokknum og er talið eitt af lykilverkum finnskrar ballettsögu. Það er nútímadansverk byggt á klassískum ballet og hefur verið aðlagað að sviðinu í Eldborg. Sagan er dönsuð af finnska dansaranum Riku Lethopolku, ásamt tveimur dönsurum Íslenska dansflokksins, þeim Brian Gerke og Ellen Margréti Bæhrenz.

Stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar á Listahátíð er hinn franski Pascal Rophé. Hann er talinn einn virtasti túlkandi tónlistar 20. aldarinnar og er reglulegur gestastjórnandi helstu sinfóníuhljómsveita og samtímahópa í Evrópu. Að sögn Rophés hefur Vorblót Stravinskíjs, allt frá fyrstu kynnum, haft gífurleg áhrif á hann og verið eitt af lykilverkum á efnisskrám hans allar götur síðan.

Dansar í Eldborg er samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslenska dansflokksins, Hörpu og Listahátíðar í Reykjavík, með þátttöku Listaháskóla Íslands.