Frumsýnt 4. febrúar 2010
Danshöfundur og textahöfundur: Alan Lucien Öyen
Frumsamin tónlist: Ólafur Arnalds
Ljósahönnun og teikningar: Aðalsteinn Stefánsson
Búningar: Elín Edda Árnadóttir
Hljóðhönnun: Sigurvald Ívar Helgason
Hvers vegna erum við alltaf að tala um ást – er þetta ekki óendanlega “þreytt” umræðuefni? Þegar dýpra er kafað skilur maður af hverju við erum sífellt að tala um ást. Reyndu að kveikja á útvarpinu og finna lag sem ekki fjallar um ástina: „Ástin mín“, „Ást við fyrstu sýn“, „Ástarsaga“, „Ástarsæla“, „Ástarsorg“. Á öldum ljósvakans er lagalistinn um ástina endalaus. Kannski er ástæðan sú að þegar hún fangar okkur er ekkert sem jafnast á við þessa unaðslegu tilfinningu og ekkert jafn sárt og þegar hún hverfur.
Í verkinu Endalaus eru endalok ástarinnar kryfjuð. Þegar samband rofnar og tveir einstaklingar eru ekki lengur „við“. Endalok ástarinnar og allt sem því fylgir: Árekstrar og afneitun, sorg og örvæntingarfullar sáttatilraunir – „hvað ef við hefðum breytt öðruvísi?“ – endurminningar og ljúfsár söknuður glataðra tækifæra. Hvað eru endalok ástarinnar? Hverfur hún alfarið eða er hún eins og hver önnur orka sem tekur á sig annað form? Orka færist úr stað en nemur hún staðar? Það býr fegurð í þessari sorglegu og átakanlegu hlið ástarinnar. Í leikjunum sem við leikum, stríðunum sem við háum, í ljóðrænni þögn hinna ósögðu orða.
Eins og ég hef ávallt sagt: hvað er að elska ekki?
Alan Lucien Öyen