Óður og Flexa halda afmæli | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Eldri Verk

Óður og Flexa halda afmæli

plakat mynd litil

Töfrar, áhætta, grín og glens! – tekið aftur upp 20. nóvember 2016 og sýnt 20.nóv, 27.nóv og 4.des á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Íslenski dansflokkurinn sýnir íslenska barnaverkið Óður og Flexa halda afmæli eftir Hannes Þór Egilsson og Þyri Huld Árnadóttur í leikstjórn Péturs Ármannssonar.

Óður og Flexa eru engir venjulegir krakkar. Þau eru ofurhetjur sem nota ímyndunaraflið til þess að fljúga. Nú ætla þau að halda ofur skemmtilegt afmæli en getur verið að þau séu búin að tapa ímyndunaraflinu?

Allt í einu birtist þeim óvæntur afmælispakki sem er ekki allur þar sem hann er séður. Áður en þau vita af eru þau komin í ævintýralegt ferðalag með prumpuskrímslum, ósýnilegum geimverum og fljúgandi marglyttum. Þetta litríka ferðalag minnir þau á að ef við notum ímyndunaraflið þarf manni aldrei að leiðast.

Óður og Flexa halda afmæli er bráðskemmtileg barnasýning fyrir börn á öllum aldri þar sem áhorfendur upplifa samspil tónlistar og dans á spennandi máta. Þetta er fyrsta frumsamda barnaverkefnið sem Íslenski dansflokkurinn sýnir í heil 15 ár.

Sýningin var frumsýnd 30. janúar 2016 í Borgarleikhúsinu og hlaut einróma lof sýningagesta og gagnrýnenda. Óður og Flexa halda afmæli var í kjölfarið tilnefnd til Grímunnar 2016 sem Barnasýning ársins og höfundarnir sem Danshöfundar ársins.

Lengd sýningar er 40 mínútur.

Danshöfundar og leikstjóri:

Höfundarnir Hannes Þór Egilsson og Þyri Huld Árnadóttir eru hér að stíga sín fyrstu skref sem danshöfundar hjá Íslenska dansflokknum. Þau hafa bæði dansað lengi með flokknum og var það þátttaka þeirra í verkinu Fullkominn dagur til drauma eftir Tono sem var kveikjan að þessu samstarfi þeirra.

Eftir þá sýningu fóru þau að vinna að því að þróa þessa skemmtilegu karaktera og frumsýndu verkið Óður og Flexa reyna að fljúga á Assitej barnasviðslistarhátíðinni 2014. Verkið var á sama tíma opnunarverk Barnamenningarhátíðar 2014 og hlaut mikið lof, frá bæði gagnrýnendum og áhorfendum.

„Ótrúlega skondið og skemmtilegt”
„Einlægni einkenndi verkið og bar persónusköpunin vott um virðingu fyrir áhorfendum, börnum á svipuðum aldri og persónurnar”
Fréttablaðið – Sesselja G. Magnúsdóttir um Óður og Flexa reyna að fljúga

Hannes Þór Egilsson (Óður) lagði stund á samkvæmisdans frá því að hann var 6 ára til 18 ára aldurs. 19 ára hóf hann nám við Listdansskóla Íslands og tveimur árum síðar var hann kominn í hinn virta skóla London Contemporary Dance School. Eftir útskrift lá leiðin beint í Íslenska dansflokkinn og hefur hann dansað með flokknum síðan með hléum. Síðastliðin ár hefur hann unnið mikið með Kristjáni Ingimarssyni og tekið þátt í hinni margrómuðu sýningu Blam!

Þyri Huld Árnadóttir (Flexa) útskrifaðist af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands 2011. Hún dansaði með Íslenska dansflokknum 2010-2012 og svo aftur núna frá 2014. Þyri samdi verkið Óraunveruleikir í Þjóðleikhúsinu 2014 ásamt Valgerði Rúnarsdóttur og Urði Hákonardóttur og hlutu þær Grímutilnefningu fyrir verk sitt.  Þyri hefur verið að þreifa sig áfram í búningahönnun samhliða dansinum en hún hefur hannað búninga fyrir tvö verk hjá Íslenska dansflokknum, It is not a metaphor eftir Cameron Corbett og Stjörnustríð 2 eftir Ásrúnu Magnúsdóttur.

Pétur Ármannsson leikari er leikstjóri sýningarinnar. Hann útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands 2012 og sótti starfsnám í leikstjórn í samtímaleikhúsinu Shaubühne í Berlín 2013. Pétur er annar af stofnendum „Dance For Me” sem hlaut tilnefninguna Sproti ársins 2014 fyrir sýninguna Dansaðu fyrir mig. Sú sýning hlaut mikla athygli fyrir þær sakir að faðir hans, sem hefur enga formlega reynslu af dansi, var aðaldansari sýningarinnar. Pétur hefur sýnt verk sín víðsvegar um Ísland en einnig í Kanada, Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og Finnlandi. Pétur hefur áður unnið sem aðstoðarleikstjóri í Borgarleikhúsinu og sem leikari hjá Leikfélagi Akureyrar.

Frumsýning var 30. janúar 2016 á Nýja sviði Borgarleikhússins. Aðrar sýningar voru 31/1, 6/2, 7/2, 13/2, 14/2, 20/2, 21/2, 21/2, 27/2, 28/2 og 6/3.

Gagnrýni

★★★★★
“Mikill hlátur var meðal áhorfenda sem spönnuðu mjög breiðan aldurshóp” – “aldrei mátti finna orkuna falla.”
Kara Hergils Valdimarsdóttir hjá Fréttablaðinu 

“Það eru því vinsamleg tilmæli til foreldra að fara með börnin í afmælið hjá Óði og Flexu og endilega bjóðið stóru systkinunum með því það er bara ávísun á skemmtilega samverustund.”
Sesselja G. Magnúsdóttir á Hugrás

“Sá sjö ára var dolfallinn. „ Þetta var skemmtilegt“, endurtók hann nokkrum sinnum og vildi fara stax aftur.”
María Kristjánsdóttir hjá Víðsjá

“Þessi sýning var ansi skemtileg og frábær. Á skalanum 0-17 fær þessi sýning 182 frá mér. Ég mundi mæla með Óð og Flexu fyrir allan aldur”
Edda Ágústa á pjatt.is

 

sadsad