Tilbrigði | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Eldri Verk

Tilbrigði

Frumsýnt 8. febrúar 2014.

Danshöfundur: Lára Stefánsdóttir

Sellóleikari: Bryndís Halla Gylfadóttir

Tónlist: Jean Sibelius

Ljósahönnun: Jóhann Bjarni Pálmason

Búningahönnun: Lára Stefánsdóttir

Dansarar: Ellen Margrét Bæhrenz og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir

Eitt af þremur verkum á kvöldinu “Þríleikur”.

Tilbrigði við þema í D moll fyrir einleiksselló eftir finnska tónskáldið Jean Sibelius var samið árið 1887 þegar Sibelius var tuttugu og tveggja ára. Verkið er tímamótaverk en það er fyrsta verkið sem samið er fyrir einleiksselló af stórtónskáldi síðan Johann Sebastian Bach samdi einleikssvítur sínar í kringum árið 1720. Ólíklegt er að Tilbrigði við þema í D moll hafi verið flutt opinberlega í tíð Jean Sibelius þar sem verkið týndist og fannst ekki fyrr en árið 1995, löngu eftir lát hans.

Tilbrigði Sibeliusar eru snilldarleg að gerð. Tónskáldið leikur sér með brotna hljóma, trillur og tvígrip og nýtir sér breitt tónsvið hljóðfærisins. Það er óhætt að segja að sellóið fái notið sín til fulls í þessu skemmtilega skrifaða verki. Dansarinn er eins og endurkast af tónlistinni, leikur með tilbrigði, endurtekin form og blæbrigði.