Bardagar, ástir, hefndir og völd!
Njála er nýtt íslenskt leikverk sem sækir innblástur í Brennu-Njálssögu,eina ástsælustu sögu okkar Íslendinga. Sagan hefur lifað með þjóðinni í sjöhundruð ár, lesin í öllum menntaskólum landsins og sjaldan verið vinsælli en einmitt nú. Hún segir frá því hvernig við urðum að þjóð, og hetjur bókarinnar, þau Gunnar, Skarphéðinn, Njáll, Hallgerður og Bergþóra eru sveipuð goðsagnakenndum ljóma og hafa mótað og markað þjóðarsálina allt til þessa dags. Sýningin er unnin í samvinnu við Íslenska dansflokkinn undir stjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar og Ernu Ómarsdóttur, danshöfundar og dansara. Þau munu tjalda öllu til og nýta ótakmarkaða töfra leikhússins til að skoða þessa stórbrotnu sögu frá ýmsum sjónarhornum í sýningu sem verður í senn forvitnileg, ögrandi og litrík leikhúsveisla.
ATHUGIÐ að Njáluhátíð hefst í forsal Borgarleikhússins fyrir hverja sýningu kl 18:00 með ýmsum uppákomum. Þar verður hægt að fá lánaða búninga, fá húðflúr, hitta leikara á vappi, kaupa kjötsúpu, sjá beina útsendingu frá leikurum í hár og förðun og fylgjast með undirbúningi á Stóra sviðinu. Jafnframt verður boðið upp á fyrirlestur um Njálu kl 19:00
Mikael Torfason er blaðamaður og rithöfundur og vakti fyrst athygli með skáldsögunni Falskur fugl sem kom út árið 1997, síðan hefur hann sent frá sér fjórar skáldsögur og leikritið Harmsögu.
Þorleifur Örn Arnarson hefur getið sér gott orð sem leikstjóri hérlendis og erlendis og hefur unnið m.a. unnið leikgerðirnar að Englum alheimsins og Sjálfstæðu fólki.
Erna Ómarsdóttir er vafalaust einn virtasti dansari og danshöfundur Íslendinga og hafa verk hennar verið sýnd á hinum ýmsu dans og listahátíðum víða um heim. Hún hefur unnið með nokkrum af fremstu dans- og sviðslistahópum Evrópu og listamönnum á borð við Jan Fabre, Sidi Larbi Cherkaoui, Björk, Jóhanni Jóhannsson og Gabríelu Friðriksdóttur. Erna hefur víða vakið athygli fyrir sinn einstaka stíl og hlotið mikið lof fyrir verk sín, núna síðast fyrir verkið Black Marrow sem hún samdi ásamt Damien Jalet, en það verk var einmitt tilnefnt til Grímuverðlaunanna 2015 sem Sýning ársins.
Frumsýning 30. desember á Stóra sviðinu.
Njála er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins og Borgarleikhússins.