Pottþétt myrkur er hluti af kvöldinu Dísablót.
Umvefðu skugga þinn og magnleysi,
faðmaðu myrkrið!
Myrkrið er hlýtt og umvefjandi. Þar getur maður sofið vært og ferðast um í draumalandi eða horfið aftur í móðurkvið. Verið varnarlaus. En myrkrið er líka ógnvekjandi, ríki martraðar og einmanaleika, lén hungraðra drauga sem eigra þar um í leit að létti eða fullnægju. Þeir leita í sífellu ljóssins sem varpar skugga á aðra, en geta þó aldrei ekki satt hungur sitt, svo ærandi er tómleikinn; óveðrið sem þeir láta okkur kljást við um alla tíð.
Pottþétt myrkur er lokakaflinn í fjórleik um myrkrið og berskjöldun mannslíkamans. Fyrsta verkið í röðinni; Myrkrið faðmar, var frumsýnt á listahátíðinni Norður og niður á vetrarsólstöðum 2017. Myndbands-innsetningin Örævi sem unnin var í samvinnu við Pierre-Alain Giraud var varpað á olíutankana við Marshall-húsið við opnun Vetrarhátíðar í Reykjavík í febrúar 2018 og þriðji hlutinn, Brot úr myrkri, var sýndur á Listahátíð í Reykjavík 2018, í porti Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúss.
Öll verkin eru flutt við nýja tónlist Sigur Rósar og Valdimars Jóhannssonar undir listrænni stjórn Ernu Ómarsdóttur og Valdimars Jóhannssonar og í samstarfi við dansara Íd.
Dansarar: Sigurður Andrean Sigurgeirsson, Elín Signý Weywadt Ragnarsdóttir, Erna Gunnarsdóttir, Felix Urbina Alejandre, Þyri Huld Árnadóttir, Inga Maren Rúnarsdóttir, Hannes Þór Egilsson, Sólbjört Sigurðardóttir og Una Björg Bjarnadóttir.