Verk nr. 1 er hluti af kvöldinu Dísablót.
Verk nr. 1 er óhóflegt og óheflað. Stjórnlaus, skipulögð og seiðandi þvæla. Fjarlægt og fjarrænt en andar ofan í hálsmálið á þér. Það er einn, tveir, þrír og margir. Hver og einn einstakur en sameinaður. Sambönd og sundrung. Átök og árekstrar. Strúktúr og styrkur. Mýkt og næmni. Þar er kafað og grafið, dýpra og dýpra. Tími og rými stækka og skapa rými fyrir hreyfingu líkama, huga og hjarta. Titringur. Tilgangur. Athygli. Það er alltaf en aldrei viðkvæmt og nákvæmt.

Piece no. 1 by Steinunn Ketilsdóttir
Verk nr. 1 er eitt mögulegt dansverk skapað á þessum stað í tíma og rúmi. Það hefur óendanleg sjónarhorn, að innan jafnt sem utan. Það er fyrsta dansverkið í samnefndri röð verka eftir danshöfundinn Steinunni Ketilsdóttur sem sprettur upp af rannsóknarverkefninu EXPRESSIONS: virði og vald væntinga í dansi þar sem stöðugt er leitað að hinum dansinum, hinsegin dansi, okkar dansi.
EXPRESSIONS er kóreógrafísk rannsókn sem Steinunn hefur leitt undanfarin tvö ár í samstarfi og samtali við alþjóðlegan hóp lista- og fræðimanna. Rannsókninni er ætlað að ýta undir þekkingaröflun á sviði danslistarinnar með því að kanna möguleika listformsins utan venjubundinna birtingarmynda þess, skapa áður ókunn rými og teygja anga sína um hverja þá króka og kima þar sem fjalla má á gagnrýninn hátt um fyrirfram gefnar hugmyndir okkar tengdum listgreininni. EXPRESSIONS veitir þannig rými fyrir rannsóknir og greiningu, rými sem krefst djúphygli og er vegvísir til framtíðar í danslistinni.
Danshöfundur: Steinunn Ketilsdóttir
Tónlist: Áskell Harðarson
Búningahönnuður: Alexía Rós Gylfadóttir
Ljósahönnuður: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Dansarar: Sigurður Andrean Sigurgeirsson, Elín Signý Weywadt Ragnarsdóttir, Erna Gunnarsdóttir, Felix Urbina Alejandre, Þyri Huld Árnadóttir, Sólbjört Sigurðardóttir og Una Björg Bjarnadóttir.
Steinunn Ketilsdóttir, danshöfundur, er búsett í Reykjavík. Hún lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002, BA-námi í dansi frá Hunter College í New York árið 2005 og árið 2016 hlaut hún meistaragráðu í performans fræðum NYU Tisch School of Arts. Steinunn á að baki alþjóðlegan feril og hefur – ýmist ein síns liðs eða í samstarfi við aðra listamenn – samið fjölda dansverka sem hafa verið sýnd beggja vegna Atlantshafsins. Hún starfaði náið með danshöfundinum Brian Gerke frá árinu 2007 en um þessar mundir eru danshöfundurinn Sveinbjörg Þórhallsdóttir og myndlistarkonan Jóní Jónsdóttir á meðal helstu samstarfskvenna Steinunnar.
Steinunn hefur verið tilnefnd til Íslensku leiklistarverðlaunanna fyrir verk sín og hlaut árið 2010 Grímuna í tveimur flokkum, sem höfundur og dansari í verkinu Ofurhetja. Hún hlaut hin eftirsóttu Perfomance Studies Award Tisch School of the Arts við útskrift frá skólanum fyrir tveimur árum.
Steinunn Ketilsdóttir hefur verið gestakennari við Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands allt frá árinu 2007 og gegnir nú rannsóknarstöðu við deildina. Hún hefur um árabil verið í framvarðasveit í sjálfstæðu danssenunni og átti drjúgan þátt í að stofna til og móta starfsemi Reykjavík Dance Festival og Dansverkstæðisins.
Auk þess að sinna rannsóknarvinnu undir yfirskriftinni EXPRESSIONS: the power and politics of expectations in dance, sem getið var hér að framan, hefur Steinunn hin síðustu misseri einbeitt sér að sólóverkefni sínu, OVERSTATEMENT/OVERSTEINUNN: Expressions of Expectations.