Árstíðirnar | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

Dansverk í fjórum hlutum, innblásið af tónverki Vivaldi, þar sem kynslóðirnar mætast á Stóra sviði Borgarleikhússins.


Íslenski dansflokkurinn kynnir Árstíðarnar eftir Valgerði Rúnarsdóttur og Snædísi Lilju Ingadóttur.

Unnið í samstarfi við Íslenska dansflokkinn.

Lengd: 60 min 


Vetur, sumar, vor og haust

augnablik eftir augnablik

hring eftir hring 

öndum og dönsum

í gegnum lífið

Árstíðirnar er splunkunýtt íslenskt dansverk í fjórum þáttum eftir Snædísi Lilju Ingadóttur og Valgerði Rúnarsdóttur. Í verkinu eru árstíðirnar fjórar; vetur, sumar, vor og haust, túlkaðar með dansi. Höfundar verksins hafa orðið fyrir áhrifum frá tónverki Antonio Vivaldi, Árstíðunum, og þeim fjölmörgu ballettum sem hafa verið skapaðir við það. Þannig hefur hin eilífa hringrás jarðar í kringum sólina, hring eftir hring, orðið að leiðarstefi verksins. Hin endurtekna kóreógrafía náttúrunnar sem jafnframt er síbreytileg og óútreiknanleg. Samband mannsins við náttúruna og sína eigin, innri náttúru.

Verkið er unnið af stórum hópi sviðslistafólks en rúmlega tuttugu dansarar flytja verkið. Verkið er samstarfi við Íslenska dansflokkinn og Forward Youth Company, þá taka tveir leikarar þátt í verkinu auk starfsnema frá dansdeild LHÍ. Aðrir listrænir stjórnendur eru Áskell Harðarson tónskáld, Rebekka A. Ingimundar leikmyndahönnuður og Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir búningahönnuður. MurMur Prodcutions aðstoðar við framleiðslu.

Danslistakonurnar Snædís og Valgerður hafa unnið saman um árabil. Þær unnu fyrst saman í verki Valgerðar, Eyjaskegg, árið 2010 og í kjölfarið dansaði Snædís í nokkrum af verkum Valgerðar. Þær hafa haldið vinnustofur fyrir börn á grunnskólaaldri og sýnt víða um land í gegnum verkefnið List fyrir alla. Þannig hafa rúmlega 2000 nemendur fengið að kynnast danslist í gegnum starf þeirra og aðferðafræði. Þá settu þær upp danssýningar með grunnskólabörnum á fjórum stöðum á landinu í gegnum verkefni sitt Derringur. Þær  störfuðu einnig saman við gerð dans- og söngvamyndarinnar Abbababb, en Valgerður er danshöfundur myndarinnar og Snædís aðstoðardanshöfundur.

Snædís Lilja Ingadóttir, dansari, leikkona og danshöfundur, er útskrifuð með BA gráðu af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands og BA gráðu í leiklist frá Rose Bruford College.

Snædís hefur unnið í fjölda verkefna hérlendis og erlendis frá útskrift og verið nokkrum sinnum tilnefnd til Grímuverðlaunanna sem dansari ársins. Hún hefur tekið þátt í nokkrum af verkum Katrínar Gunnarsdóttur auk þess að taka þátt í sýningum Steinunnar Ketilsdóttur og í rannsóknarverkefninu EXPRESSIONS: the power and politics of expectations in dance. Þá hefur Snædís unnið um árabil með Tinnu Grétarsdóttur og dansflokki hennar Bí bí og blaka en sýningarnar hafa verið sýndar í fjölda ára og ferðast víða um heim.  Nýjasta samstarfsverkefni Bí bí og blaka er sýningin Tower of Babel í leikstjórn Hilde Brinkman sem var frumsýnt í National Drama Theatre Kaunas í Litháen ágúst 2022 og í Noregi í september 2023.

Snædís hefur setið í fjölmörgum stjórnum og situr nú í stjórn Dansverkstæðisins. Þá kennir hún reglulega við Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands og víðar.

Valgerður Rúnarsdóttir hefur starfað sem dansari og danshöfundur hérlendis og erlendis frá árinu 1998, eða allt frá því að hún útskrifaðist með BA gráðu í samtímadansi frá Listaháskólanum í Osló. Þá lauk hún meistaranámi í sviðslistum við Listaháskóla Íslands 2022 og meistaranámi í verkefnastjórnun (MPM) við Háskóla Reykjavíkur 2023.

Valgerður hefur leitt fjölda verkefna og hefur tvívegis hlotið Grímuverðlaunin sem danshöfundur ársins fyrir verk sín Eyjaskegg og Farangur. Þá hefur Valgerður starfað sem danshöfundur í leiksýningunum Fíasól, Marat/Sade og Ríkharður III  og í kvikmyndunum Abbababb, Á annan veg og París Norðursins.

Valgerður starfaði um árabil hjá Íslenska dansflokknum sem dansari eða þar til hún hóf störf með belgíska danshöfundinum Sidi Larbi Cherkaoui en hún tók þátt í að skapa og sýna verk danshöfundarins víða um heim í rúm 10 ár. Valgerður hefur einnig starfað með Ernu Ómarsdóttur í nokkrum af hennar verkum, tekið þátt í uppfærslum Leikfélags Reykjavíkur, Þjóðleikhússins auk fjölda annarra sjálfstæðra verkefna hérlendis og erlendis.

Valgerður hefur tekið virkan þátt í kjarabaráttu og uppbyggingu danssenunnar á Íslandi. Setið í stjórn Dansverkstæðisins, Reykjavík Dance Festival, Félagi íslenskra listdansara og Félagi íslenskra leikara.


Höfundar: Snædís Lilja Ingadóttir og Valgerður Rúnarsdóttir

Tónlist og hljóðmynd: Áskell Harðarsson

Sviðsmynd: Rebekka Austman Ingimundardóttir

Ljós: Katerina Blahutova

Búningar: Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir

Framleiðsla: MurMur Productions

Myndband og ljósmyndir: Margrét Seema Takyar

Sviðslistamenn: Árni Pétur Guðjónsson og Harpa Arnardóttir

Meðlimir ÍD: Eydís Rose Vilmundardóttir, Inga Maren Rúnarsdóttir, Sarah Fisher Luckow og Shota Inoue

Börn: Kría Valgerður Vignisdóttir og Lára Ísadóra Hafsteinsdóttir

Starfsnemar og nemendur frá dansdeild LHÍ: Lea Alexandra Gunnarsdóttir og Sara Lind Guðnadóttir

Meðlimir Forward Youth Company: Bergþóra Sól Elliðadóttir, Diljá Þorbjargardóttir, Emma Eyþórsdóttir, Hafey Lipka Þormarsdóttir, Hanna Hulda Hafþórsdóttir, Hekla Ýr Þorsteinsdóttir, Kristína Rannveig Jóhannsdóttir, Lára Stefanía Guðnadóttir, Melkorka Embla Hjartardóttir, Oliver Alí Magnússon, Steinunn Þórðardóttir og Sunna Mist Helgadóttir


Verkið er styrkt af Sviðslistasjóði, Launasjóði Listamanna og Reykjavíkurborg. 


Árstíðirnar verður frumsýnt 13. janúar 2024 á stóra sviði Borgarleikhússins.