Slangan snýst og sniglast og svanurinn virðist þekja himininn með vænghafi sínu. Bara ef stúlkan byggi yfir slíkum kynngikrafti, liðug, snörp og létt á tá, svífandi um loftin blá. Skyndilega rennur upp töfrastund, draumar hennar rætast og stúlkan tekur á sig nýja mynd. Hún umbreytist á einhvern magnaðan hátt. Aftur og aftur og aftur. En hún sá ekki fyrir hvað það myndi kosta, hvað það kostar að njóta eiginleika dýranna. Þegar vegferð stúlkunnar lýkur og hún snýr aftur heim, bíður móðir hennar í gættinni. Hún opnar faðminn, en hikar, dóttir hennar er óþekkjanleg, svo mikil hefur breytingin orðið. Stúlkunni bregður við að spegla sig í augum móður sinnar. Hún áttar sig á því hve dýrmætt það er að vera eins og maður er, sannur sjálfum sér. Gjöful voru sporin en brautin ekki bein. Því lengri för sem er farin, því sætari er ferðin heim, að hvíla lítið hjarta í móðurhöndum tveim. Stúlkan sleppir snarlega takinu af nýju eiginleikunum sínum og velur að vera hún sjálf. Það er líka sérstakt því það er enginn annar sem getur það. Það er undursamlegt og töfrandi, vel geymt leyndarmál, sem deila má með smárri sál.
Dansverk fyrir börn frá tveggja ára aldri.
Verkið er 40 mínútur.
Að því loknu verða kenndar danshreyfingar fyrir þá sem vilja.
Frumsýnt 15. maí 2021 á Nýja sviði Borgarleikhússins.
Dagdraumar er annað verk tvíeykisins Ingu Marenar og Júlíönnu Láru. Samstarf þeirra má rekja aftur til ársins 2007 þegar þær stofnuðu Menningarfélagið ásamt Ásgeiri Helga Magnússyni og Lydíu Grétarsdóttur. Menningarfélagið framleiddi fimm sviðsverk og þrjár dansstuttmyndir í samstarfi við Þóru Hilmarsdóttur. Árið 2020 frumsýndu þær saman verkið ÆVI og um þessar mundir vinna þær einnig að dansverkinu Þoka sem verður frumsýnt veturinn 2021 – 2022. Báðar sýningarnar eru unnar í samstarfi við Íslenska dansflokkinn og hafa hlotið styrk frá leiklistarráði og listamannalaunum.
Inga Maren hefur unnið hjá Íslenska dansflokknum frá árinu 2011. Jafnframt hefur hún starfað í verkefnum erlendis og með sjálfstæðum hópum hér á landi. Inga Maren lauk BA prófi við London Contemporary Dance School, er með kennsluréttindi í Flying Low og Passing Through tækni frá David Zambrano og er menntaður Yogakennari.
Júlíanna hefur unnið með Íslenska dansflokknum frá árinu 2012 sem búninga- og sviðsmyndahöfundur. Júlíanna lauk BA prófi við Central Saint Martins listaháskólann í London árið 2010 og hefur starfað sem búninga- og leikmyndahönnuður fyrir kvikmyndir, þætti, stuttmyndir, tónlistarmyndbönd, auglýsingar og leikhús.
Hugmynd og danshöfundur:
Inga Maren Rúnarsdóttir
Sviðsmynd og búningar:
Júlíanna Lára Steingrímsdóttir
Dansarar:
Stúlka: Charmene Pang
Móðir og svanur: Halla Þórðardóttir
Slanga, héri & könguló: Ásgeir Helgi Magnússon
Myndhöfundur, sýningarskrá, sviðsmynd og veggspjald:
Auður Þórhallsdóttir
Búningagerð:
Alexía Rós Gylfadóttir
Lýsing:
Pálmi Jónsson
Tónlist:
Lög eftir Alexandre Desplat, Henry Mancini, Jonny Greenwood, Dario Marianelli, Danny Elfman & Portico Quartet
Hljóð:
Baldvin Þór Magnússon
Ljósmyndir:
Hörður Sveinsson
Hreyfingarnar í verkinu voru unnar í samstarfi við dansarana og Þyri Huld Árnadóttur sem einnig aðstoðaði við búningagerð.
Skráning á póstlistann
Borgarleikhúsinu
Listabraut 3, 103 Reykjavík
588 0900 | Miðasala 568 8000
Skráning á póstlistann
Skilmálar
Persónuvernd