Hringrás
Hringrás er nýtt verk eftir Þyri Huld Árnadóttur leikstýrt af Aðalheiði Halldórsdóttur.
Verkið er unnið í samstarfi við Urði Hákonardóttur tónskáld, Júlíönnu Láru Steingrímsdóttur búninga- og leikmyndahönnuð og Pálma Jónsson ljósahönnuð.
Saga Sigurðardóttir & Anni Ólafsdóttir sjá um myndbandsinnsetningu í sviðsmynd.

Hringrás er dansverk til heiðurs kvenlíkamans.
Verkið samtvinnar myndlist, tónlist og dans sem mynda heildræna hringrás.
Öll erum við í sömu hringrásinni, plöntur, dýr og mannfólkið.
Fræ og vatn verður að blómi.
Egg og sæði að manneskju.
Konan gengur með barnið, kemur því í heiminn og nærir.
Líkaminn umturnast við ferlið sem er fæstum konum auðvelt.
Við þurfum að elska líkamann okkar, sama hvort hann sé feitur, mjór, langur, lítill, slitinn eða sléttur.
Við lifum öll í hringrás.

Þyri Huld Árnadóttir hlaut grímuna sem dansari ársins árið 2015 og 2018 fyrir hlutverk sín í verkunum Sin og Hin lánsömu. Hún hóf feril sinn hjá Íslenska dansflokknum árið 2010 og hefur tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum sem dansari og danshöfundur síðan. Þyri hefur samið þrjú verk um ofurhetjurnar Óð og Flexu ásamt Hannesi Þóri Egilssyni og hafa þau hlotið Grímutilnefningar fyrir barnasýningu ársins og danshöfundar ársins.
Verkið er styrkt af Sviðslistarráði og var valið samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins veturinn 2022 – 2023. Hringrás er framleitt í samstarfi við EG Studio.
Frumsýning 3. febrúar 2023 á Litla sviði Borgarleikhússins.