HVÍLA SPRUNGUR | [ Íd ] Íslenski dansflokkurinn

HVÍLA SPRUNGUR

Mennskt landslag í myndum

Lengd: 60 min


Hvíla sprungur rýnir í dulin jarðlög hugans þar sem áföll hafa skotið rótum, allt þar til hulan sem þekur þau brestur og þau spretta fram á yfirborðið. Fólk sinnir sínu daglega amstri með allan sinn farangur, í móki, vélrænt, án hugsunar í sameiginlegri sjálfsbjargarblindu. Hvíla sprungur er ferli sem rýfur þennan svefn. Sviðsmynd og tónlist spila veigamikið hlutverk í sýningunni þar sem hljóð- og myndheimur eru órjúfanlegur þáttur af merkingarheimi verksins. 


Hugurinn er í móðu.

Líkt og hann sé hulinn hvítri snjóþekju.

Umhverfið sem var svo kunnuglegt er skyndilega einsleitt og framandi.

Líkt og rjúpan sem hefur lært að bregða litum til þess að lifa af hefur manneskjan lært að aðlaga sig umhverfi sínu.

Hún samlagast fjallendinu, felur sig, hverfur.

Hún vill ekki sjást.

Það er líkt og blóðið taki að storkna í æðunum, allt verður hægt og hratt samtímis.

Hver augngota verður ógnvekjandi, andardrátturinn svo hávær, hjartslátturinn yfirgnæfir hverja frumu líkamans.

Það er erfitt að hreyfa sig.

Er ég fundinn?

Hendurnar fálma í þokunni.

Það birtir til. Sárin eru sýnileg, þau ytri og þau innri.

Rispur á sál, skarð í hjarta.

Þar hvíla sprungur sem fennt hefur yfir.

Tíminn líður og drífan fellur, felur sprungur sem hvíla.


Í verkinu Hvíla sprungur dansa fjórir dansarar í landslagi af myndum eftir RAX, Ragnar Axelsson. Myndirnar verða notaðar á óhefðbundinn hátt sem gefur dönsurunum tækifæri á að hverfa inní sviðsmyndina.

Inga Maren Rúnarsdóttir hefur starfað sem dansari og danshöfundur í fjölda mörg ár, bæði hjá Íslenska dansflokknum og sjálfstæðum hópum. Hún hefur unnið með danshöfundum s.s. Damien Jalet, Ernu Ómarsdóttur, Anton Lackhy og nú síðast Kristjáni Ingimarssyni í Kaupmannahöfn 2021. Hún hefur bæði starfað að uppfærslum hérlendis og erlendis auk þess sem hún hefur ferðast víða með sýningar.

Inga Maren og Júlíanna Lára hafa á síðastliðnum þremur árum skapað tvö dansverk saman og er Hvíla sprungur það þriðja í röðinni. Verkin Ævi og Dagdraumar hlutu góðar viðtökur áhorfenda og hlutu samtals 6 grímutilnefningar, m.a. barnasýning ársins og búningar ársins 2020. Inga Maren hlaut tvenn verðlaun fyrir Ævi, sem dansari og danshöfundur ársins.


Danshöfundur: Inga Maren Rúnarsdóttir

Búningar og leikmynd: Júlíanna Lára Steingrímsdóttir (með myndum eftir RAX)

Tónlist: Byggð á tónverkinu Quadrantes eftir Óttar Sæmundsen og Stephan Stephensen í samsetningu Stephans.

Ljósmyndir: Ragnar Axelsson (RAX)

Ljós: Pálmi Jónsson

Búningagerð: Alexía Rós Gylfadóttir & G-Elsa Ásgeirsdóttir

Dansarar: Ásgeir Helgi Magnússon, Emilía Benedikta Gísladóttir, Erna Gunnarsdóttir, Sigurður Andrean Sigurgeirsson.


Verkið er styrkt af Sviðslistarráði og var valið samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins veturinn 2021 – 2022.

Frumsýning 4. febrúar, 2022 á Nýja sviði Borgarleikhússins.


sadsad